Táknmálsþýðing
Tryggingarsjóðurinn skal greiða Hollendingum allt að 1.322 milljónir evra (tæplega 215 milljarðar króna miðað við sölugengi 25. mars 2011, 162,33 krónur) og Bretum allt að 2.350 milljónir sterlingspunda (433,5 milljarðar króna miðað við sölugengi 25. mars 2011, 184,47 krónur). Þetta er hluti af því fé sem stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa greitt út til viðskiptavina Landsbanka Íslands hf. í löndunum tveimur.
Til frádráttar þessum fjárhæðum munu koma greiðslur frá Landsbanka Íslands hf. sem lækka höfuðstól krafnanna þegar þær berast. Ekki liggur fyrir hversu háar þær greiðslur verða.
Kröfurnar eru vaxtalausar til 1. október 2009 en eftir það ber höfuðstóll fjárhæðarinnar 3% vexti gagnvart Hollandi og 3,3% vexti gagnvart Bretlandi til 30. júní 2016.
Íslenska ríkið ábyrgist greiðslur vaxta til 30. júní 2016 og þann hluta Icesave-skuldbindingarinnar sem þá kann að standa eftir. Verði um greiðslur að ræða eftir 2016 skulu vextir vera þeir lægstu sem finna má almennt í alþjóðlegum lánasamningum.
Standist áætlanir um heimtur úr búi Landsbankans mun greiðslum samkvæmt samningunum ljúka að fullu árið 2016. Gangi þær áætlanir ekki eftir kemur til áframhaldandi greiðslna sem lengst geta staðið til ársins 2046.
Raskist áætlanir verulega hefur verið samið um tvenns konar efnahagslega fyrirvara sem eiga að tryggja að greiðslubyrði verði viðráðanleg:
- Í fyrsta lagi lengist endurgreiðslutíminn um eitt ár fyrir hverja 10 milljarða króna sem eftirstöðvar (2016) kunna að fara yfir 45 milljarða króna og
- Í öðru lagi verður árleg endurgreiðsla aldrei umfram upphæð sem nemur:
- 5% af heildartekjum ríkisins ársins á undan eða
- 1,3% af vergri landsframleiðslu ársins á undan.
Komi til þess að á þetta ákvæði reyni verður miðað við hærri fjárhæðina.
Unnt er að óska eftir endurskoðun samninganna ef úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýnir að skuldaþoli Íslands hafi hrakað til muna miðað við mat sjóðsins frá 19. nóvember 2008.
Samninganefnd ríkisins áætlar nú að heildarútgjöld ríkissjóðs nemi 32 milljörðum króna. Ítrekað skal að þessi tala er áætluð. Endanleg fjárhæð getur því breyst og orðið hærri eða lægri. Áætlanir og fleiri útreikninga er hægt að kynna sér hér.