Þjóðaratkvæðagreiðslan 9. apríl 2011

English (United Kingdom)Icelandic(IS)
dansarar.jpg
 
 
You are here: Icesave-deilan
 
 
Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa

Um hvað snýst deilan við Breta og Hollendinga?

Lesa textann

You must have Flash Player installed in order to see this player.

Táknmálsþýðing

Íslensk stjórnvöld hafa haldið því fram að reglur Evrópusambandsins um innstæðutryggingar, sem innleiddar hafa verið hér á landi á grundvelli EES-samningsins, feli ekki í sér lagalega skyldu ríkja til að ábyrgjast innstæður viðskiptavina banka umfram eignir viðkomandi tryggingarsjóðs. Aðildarríki geti því ekki orðið ábyrg gagnvart viðskiptavinum banka hafi þau komið sér upp innstæðutryggingakerfi. 

Íslensk stjórnvöld hafa einnig haldið fram sjónarmiðum um sameiginlega ábyrgð á gölluðu regluverki um innstæðutryggingar. Regluverkinu hafi ekki verið ætlað að ná yfir hrun þorra fjármálastofnana á sama tíma. Ísland hafi fullnægt skuldbindingum samkvæmt EES-rétti með því að setja á laggirnar tryggingakerfi sem undir venjulegum kringumstæðum hefði dugað.

Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa hins vegar haldið því fram að ábyrgð á innstæðutryggingum viðskiptavina banka takmarkist ekki við eignir viðkomandi tryggingarsjóðs og að aðildarríkin þurfi þá að sjá til þess að lágmarkstrygging verði greidd. Þau telja jafnframt að íslensk stjórnvöld hafi með því að ábyrgjast að fullu innstæður viðskiptavina bankanna hér á landi mismunað viðskiptavinum þeirra eftir staðsetningu útibúa. Þá hafi íslensk stjórnvöld með yfirlýsingum sínum á árinu 2008 skuldbundið sig til að endurgreiða lágmarkstrygginguna. Loks telja þau að málarekstur um þessi atriði sé til þess fallinn að grafa undan trausti á fjármálakerfi Evrópuríkja.

Afstaða breskra og hollenskra stjórnvalda hefur notið stuðnings ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins, auk Noregs, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Skiptar skoðanir eru um mögulega niðurstöðu dómstóla um þetta álitamál komi það til kasta þeirra. Íslensk, bresk og hollensk stjórnvöld halda því til að mynda öll fram að dómafordæmi Evrópudómstólsins styðji afstöðu þeirra.

Niðurstaða viðræðna um Icesave-reikningana er hins vegar sú að íslenska ríkið ábyrgist að bresk og hollensk stjórnvöld fái endurgreiddan þann hluta kostnaðarins sem nemur lágmarki innstæðutrygginganna með vöxtum.