Þjóðaratkvæðagreiðslan 9. apríl 2011

English (United Kingdom)Icelandic(IS)
akureyri.jpg
 
 
You are here: Bakgrunnur Landsbanki Íslands hf. og Icesave
 
 
Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa

Um úthlutanir úr búinu til að greiða niður endurgreiðslufjárhæðina

Eftir að lög um Icesave voru afgreidd á Alþingi birti skilanefnd Landsbankans nýtt mat á endurheimtum úr búi bankans 2. mars 2011. Samninganefndin hefur því lagt nýtt mat á áhrif þess á skuldbindingar ríkissjóðs og fellt það inn í texta greinargerðarinnar.

Hér eru birtir kaflar úr uppfærðri greinargerð samninganefndarinnar og sömu kaflar úr upphaflegri greinargerð til laganna.  Allar uppfærslur eru auðkenndar þessum lit.

3.1.3 Um úthlutanir úr búinu til að greiða niður endurgreiðslufjárhæðina (uppfærð greinargerð samninganefndar)

Aukin vissa er nú um endurheimtur úr búi Landsbankans. Skilanefnd bankans telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar 2. mars 2011 að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 89%. Heildarforgangskröfur nema 1.320 milljörðum kr., en heimtur eru áætlaðar 1.175 milljarðar kr. Forgangskröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í bú Landsbankans voru festar á gengi íslensku krónunnar miðað við 22. apríl 2009 og geta numið allt að 677 milljörðum kr. að höfuðstóli. Við þá fjárhæð bætast áfallnir vextir eins og síðar er vikið að. Gert er ráð fyrir að í hlut tryggingarsjóðsins komi ríflega 51% af forgangskröfum eða sem nemur um 602 milljörðum kr., eins og sést í eftirfarandi töflu:

Áætlað endurheimtuhlutfall
Forgangskröfur miðað við gengi 22. apríl 2009 677
Endurheimtur miðað við gengi 30. september 2010 602
Endurheimtuhlutfall miðað við gengi 30. september 2010 89%

Framangreindar tölur miðast við hámarksfjárhæðir á framseldum höfuðstólskröfum samkvæmt endurgreiðslusamningunum.

Samkvæmt vinnugögnum frá Landsbankanum má reikna með því að höfuðstóll framseldra krafna samkvæmt endurgreiðslusamningunum verði nokkru lægri eða 659 milljarðar kr. miðað við 22. apríl 2009.

Styrking íslensku krónunnar síðastliðin missiri hefur þau áhrif að færri krónur þarf til að standa skil á endurgreiðslunum til Breta og Hollendinga þar sem greiðslur til þeirra eru í pundum og evrum. Miðað við gengi krónunnar 31. desember 2010 hefur endurgreiðslufjárhæðin þannig lækkað úr 659 milljörðum kr. í 612 milljarða kr.

Við mat á heildarkostnaði þykir rétt að byggja á reikniforsendum Seðlabankans um gengisþróun evrunnar á komandi árum og væntri ávöxtun af eignasafni Landsbankans. Gert er ráð fyrir að þeir gjaldmiðlar sem eignir þrotabúsins eru bundnir í muni þróast samhliða evrunni, sem mun veikjast lítillega samkvæmt þeim reikniforsendum. Miðað við þær forsendur um gengisþróun, endurheimtur og útgreiðslur mun höfuðstóll skuldbindingarinnar lækka úr 659 milljörðum kr. í 595 milljarða kr., eða um 64 milljarða kr., miðað við tímabilið frá 22. apríl 2009 og fram á mitt ár 2016. Sömu gengisáhrif verða á endurheimtur sem lækka því úr samtals 650 milljörðum kr. í 586 milljarða kr., miðað við tímabilið frá 22. apríl 2009 og fram á mitt ár 2016, eða sem nemur um 64 milljarða kr. samkvæmt sömu forsendum.

Þróun gjaldmiðla næstu árin getur því haft mikil áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs vegna Icesave. Gjaldeyrisáhættan felst ekki einungis í þróun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum heldur einnig innbyrðis þróun annarra gjaldmiðla. Það á sérstaklega við um sterlingspundið. Ástæðan er sú að meiri hluti skuldbindingarinnar er í sterlingspundum en hlutfall eigna í búi Landsbankans í sterlingspundum er einungis um þriðjungur, en gott jafnvægi er milli eigna Landsbankans og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í evrum talið. Hvort tveggja, þ.e. gengi krónu og sterlingspunds gagnvart öðrum gjaldmiðlum, getur haft áhrif á það hvernig endurheimtur duga til að greiða niður Icesave-skuldbindinguna. Fjallað verður nánar um gjaldeyrisáhættu í kafla 3.2.1.2.

Eignir þrotabús Landsbankans nema framangreindum 1.175 milljörðum kr. og eru að stærstum hluta vaxtaberandi kröfur. Þar af er hlutur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta 586 milljarðar kr. sem áður segir. Nokkur óvissa er bundin við ávöxtun eigna bús Landsbankans. Skilanefndin hefur ekki gert ráð fyrir eignatekjum í heimtumati sínu, en það má á hinn bóginn telja fullvíst að þær eignatekjur verði allverulegar. Samkvæmt afar varlegu mati má áætla að ávöxtun og vaxtatekjur af eignum búsins, sem falla til umfram rekstrarkostnað skilanefndar og slitastjórnar og renna til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fram á mitt ár 2016, muni nema samtals 33 milljörðum kr. Er þá m.a. horft til þess að vextir af skuldabréfum sem Nýi Landsbankinn (NBI hf.) gaf út vegna yfirtöku á eignum úr eignasafni gamla bankans muni skila tryggingarsjóðnum um 23 milljarða kr. tekjum.Við mat á heildarkostnaði ríkisins vegna samninganna er horft til framangreindra 586 milljarða kr. og áætlaðra 33 milljarða kr. aukatekna. Endurheimtur úr búi Landsbankans ásamt væntri ávöxtun eignasafnsins nema því samtals 619 milljörðum kr. Eins og áður var nefnt er skuldbinding Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum samtals 595 milljarðar kr. að teknu tilliti til gengisþróunar krónunnar. Samkvæmt því ætti tryggingarsjóðurinn að endurheimta 22 milljarða kr. umfram þá höfuðstólsfjárhæð sem ríkið ábyrgist að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum og gengur sú fjárhæð upp í áfallna vexti. Eftirfarandi töflur sýna umræddar tölur.

Áhrif gengisþróunar á höfuðstól
Forgangskröfur miðað við gengi 22. apríl 2009 659
Áhrif gengisþróunar á höfuðstól skuldbindingarinnar -64
Höfuðstóll með gengisáhrifum 595

Áhrif gengisþróunar og ávöxtunar á endurheimtur
Endurheimtur miðað við gengi 22. apríl 2009 650
Áhrif gengisþróunar á endurheimtur -64
Ávöxtun eignasafns Landsbankans 33
Endurheimtur með gengisáhrifum og ávöxtun 619

Eftirstöðvar 2016
Höfuðstóll með gengisáhrifum 595
Hlutdeild Breta og Hollendinga í vaxtakröfum 2
Endurheimtur með gengisáhrifum og ávöxtun -619
Eftirstöðvar 2016 -22

Áætlanir skilanefndar og slitastjórnar Landsbanka Íslands miða við að hefja úthlutun upp í samþykktar forgangskröfur um mitt ár 2011 þegar búið er að leysa úr stærstum hluta ágreiningsmála þeirra er telja til réttinda í búið. Slitastjórn er þó jafnframt heimilt að hraða greiðslum úr búi bankans upp í þessar kröfur án þess að ágreiningur um viðurkenningu krafna, sem gætu staðið þeim jafnfætis í réttindaröð, hafi verið til lykta leiddur, sbr. 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og því ákvæði var nýlega breytt með 50. gr. laga nr. 75/2010.

Áætlanirnar gera ráð fyrir að öllu handbæru fé, sem um síðastliðin áramót nam 361 milljarði kr., auk þeirra fjármuna sem innheimtast fyrri hluta ársins 2011, verði þá ráðstafað upp í forgangskröfur en íslenski tryggingarsjóðurinn er talinn eiga um 51% þeirra. Þetta getur svarað til rúmlega 415 milljarða, en þar af mundi þá rúmur helmingur ganga til að greiða niður höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar. Það mundi þýða að rúmlega þriðjungur skuldbindingarinnar yrði greiddur um leið og þessi úthlutun fer fram. Áætlanir skilanefndar/slitastjórnar gera enn fremur ráð fyrir að alls hafi innheimst sem svarar til rúmlega helmings eigna fyrir árslok 2013, en þá yrði meginhluti óinnleystra eigna fólginn í skuldabréfi sem gefið er út af nýja bankanum./p>

 

3.1.3. Um úthlutanir úr búinu til að greiða niður endurgreiðslufjárhæðina  (greinargerð með frumvarpinu)

Aukin vissa er nú um endurheimtur úr búi Landsbankans. Skilanefnd bankans telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar 9. nóvember 2010 að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 86%. Heildarforgangskröfur nema 1.320 milljörðum kr., en heimtur eru áætlaðar 1.138 milljarðar kr. Forgangskröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í bú Landsbankans voru festar á gengi íslensku krónunnar miðað við 22. apríl 2009 og geta numið allt að 673 milljörðum kr. að höfuðstóli. Við þá fjárhæð bætast áfallnir vextir eins og síðar er vikið að. Gert er ráð fyrir að í hlut tryggingarsjóðsins komi ríflega 51% af forgangskröfum eða sem nemur um 584 milljörðum kr., eins og sést í eftirfarandi töflu:

Áætlað endurheimtuhlutfall
Forgangskröfur miðað við gengi 22. apríl 2009 673
Endurheimtur miðað við gengi 30. september 2010 584
Endurheimtuhlutfall miðað við gengi 30. september 2010 86%

Framangreindar tölur miðast við hámarksfjárhæðir á framseldum höfuðstólskröfum samkvæmt endurgreiðslusamningunum.
Samkvæmt vinnugögnum frá Landsbankanum má reikna með því að höfuðstóll framseldra krafna samkvæmt endurgreiðslusamningunum verði nokkru lægri eða 659 milljarðar kr. miðað við 22. apríl 2009.
Styrking íslensku krónunnar síðastliðin missiri hefur þau áhrif að færri krónur þarf til að standa skil á endurgreiðslunum til Breta og Hollendinga þar sem greiðslur til þeirra eru í pundum og evrum. Miðað við gengi krónunnar 30. september 2010 hefur endurgreiðslufjárhæðin þannig lækkað úr 659 milljörðum kr. í 610 milljarða kr.
Við mat á heildarkostnaði þykir rétt að byggja á reikniforsendum Seðlabankans um gengisþróun evrunnar á komandi árum og væntri ávöxtun af eignasafni Landsbankans. Gert er ráð fyrir að þeir gjaldmiðlar sem eignir þrotabúsins eru bundnir í muni þróast samhliða evrunni, sem mun veikjast lítillega samkvæmt þeim reikniforsendum. Miðað við þær forsendur um gengisþróun, endurheimtur og útgreiðslur mun höfuðstóll skuldbindingarinnar lækka úr 659 milljörðum kr. í 595 milljarða kr., eða um 64 milljarða kr., miðað við tímabilið frá 22. apríl 2009 og fram á mitt ár 2016. Sömu gengisáhrif verða á endurheimtur sem lækka því úr samtals 632 milljörðum kr. í 570 milljarða kr., miðað við tímabilið frá 22. apríl 2009 og fram á mitt ár 2016, eða um sem nemur rúmlega 61 milljarði kr. samkvæmt sömu forsendum.
Þróun gjaldmiðla næstu árin getur því haft mikil áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs vegna Icesave. Gjaldeyrisáhættan felst ekki einungis í þróun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum heldur einnig innbyrðis þróun annarra gjaldmiðla. Það á sérstaklega við um sterlingspundið. Ástæðan er sú að meiri hluti skuldbindingarinnar er í sterlingspundum en hlutfall eigna í búi Landsbankans í sterlingspundum er einungis um þriðjungur, en gott jafnvægi er milli eigna Landsbankans og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í evrum talið. Hvort tveggja, þ.e. gengi krónu og sterlingspunds gagnvart öðrum gjaldmiðlum, getur haft áhrif á það hvernig endurheimtur duga til að greiða niður Icesave- skuldbindinguna. Fjallað verður nánar um gjaldeyrisáhættu í kafla 3.2.1.2.
Eignir þrotabús Landsbankans nema framangreindum 1.138 milljörðum kr. og eru að stærstum hluta vaxtaberandi kröfur. Þar af er hlutur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta 570 milljarðar kr. sem áður segir. Nokkur óvissa er bundin við ávöxtun eigna bús Landsbankans. Skilanefndin hefur ekki gert ráð fyrir eignatekjum í heimtumati sínu, en það má á hinn bóginn telja fullvíst að þær eignatekjur verði allverulegar. Samkvæmt afar varlegu mati má áætla að ávöxtun og vaxtatekjur af eignum búsins, sem falla til umfram rekstrarkostnað skilanefndar og slitastjórnar og renna til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fram á mitt ár 2016, muni nema samtals 33 milljörðum kr. Er þá m.a. horft til þess að vextir af skuldabréfum sem Nýi Landsbankinn (NBI hf.) gaf út vegna yfirtöku á eignum úr eignasafni gamla bankans muni skila tryggingarsjóðnum um 23 milljarða kr. tekjum. Við mat á heildarkostnaði ríkisins vegna samninganna er horft til framangreindra 570 milljarða kr. og áætlaðra 33 milljarða kr. aukatekna. Endurheimtur úr búi Landsbankans ásamt væntri ávöxtun eignasafnsins nema því samtals 603 milljörðum kr.
Eins og áður var nefnt er skuldbinding Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum samtals 595 milljarðar kr. að teknu tilliti til gengisþróunar krónunnar. Samkvæmt því ætti tryggingarsjóðurinn að endurheimta 8 milljarða kr. umfram þá höfuðstólsfjárhæð sem ríkið ábyrgist að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum og gengur sú fjárhæð upp í áfallna vexti. Eftirfarandi töflur sýna umræddar tölur.

Áhrif gengisþróunar á höfuðstól
Forgangskröfur miðað við gengi 22. apríl 2009 659
Áhrif gengisþróunar á höfuðstól skuldbindingarinnar -64
Höfuðstóll með gengisáhrifum 595

Áhrif gengisþróunar og ávöxtunar á endurheimtur
Endurheimtur miðað við gengi 22. apríl 2009 632
Áhrif gengisþróunar á endurheimtur -61
Ávöxtun eignasafns Landsbankans 33
Endurheimtur með gengisáhrifum og ávöxtun 603

Eftirstöðvar 2016
Höfuðstóll með gengisáhrifum 595
Endurheimtur með gengisáhrifum og ávöxtun 603
Eftirstöðvar 2016 -8

Áætlanir skilanefndar og slitastjórnar Landsbanka Íslands miða við að hefja úthlutun upp í samþykktar forgangskröfur um mitt ár 2011 þegar búið er að leysa úr stærstum hluta ágreiningsmála þeirra er telja til réttinda í búið. Slitastjórn er þó jafnframt heimilt að hraða greiðslum úr búi bankans upp í þessar kröfur án þess að ágreiningur um viðurkenningu krafna, sem gætu staðið þeim jafnfætis í réttindaröð, hafi verið til lykta leiddur, sbr. 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og því ákvæði var nýlega breytt með 50. gr. laga nr. 75/2010.
Áætlanirnar gera ráð fyrir að öllu handbæru fé, sem um næstu áramót getur numið allt að 350 milljörðum kr., auk þeirra fjármuna sem innheimtast fyrri hluta næsta árs, verði þá ráðstafað upp í forgangskröfur en íslenski tryggingarsjóðurinn er talinn eiga um 51% þeirra. Þetta getur svarað til tæplega 400 milljarða, en þar af mundi þá rúmur helmingur ganga til að greiða niður höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar. Það mundi þýða að tæplega þriðjungur skuldbindingarinnar yrði greiddur um leið og þessi úthlutun fer fram. Áætlanir skilanefndar/slitastjórnar gera enn fremur ráð fyrir að alls hafi innheimst sem svarar til um helmings eigna fyrir árslok 2013, en þá yrði meginhluti óinnleystra eigna fólginn í skuldabréfi sem gefið er út af nýja bankanum.