Táknmálsþýðing
Landsbanki Íslands hf. rak útibú í Bretlandi og Hollandi. Bankinn bauð viðskiptavinum sínum að leggja fé inn á reikninga sem nefndir voru Icesave. Greitt var í Tryggingarsjóðinn á Íslandi, heimaríki bankans, vegna þessara reikninga.
Við bankahrunið á Íslandi, í október 2008, gat Landsbanki Íslands hf. ekki greitt eigendum Icesave-reikninga út innstæður sínar. Í kjölfarið ákváðu yfirvöld í Bretlandi að bæta almennum viðskiptavinum bankans tjón þeirra að fullu og í Hollandi var viðskiptavinum bankans bætt tjónið að ákveðnu marki umfram lágmarksinnstæðutryggingar. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi kröfðu síðan íslensk stjórnvöld um endurgreiðslu á lágmarksinnstæðutryggingunum. Um þær endurgreiðslur er fjallað í Icesave-samningunum.
Í megindráttum felst í samningunum að Tryggingarsjóðurinn skuldbindur sig til að endurgreiða breskum og hollenskum stjórnvöldum kostnað vegna uppgjörs á lágmarkstryggingu við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.
Tryggingarsjóðurinn á einungis fjármuni sem svara til lítils hluta af innstæðuskuldbindingum vegna Icesave-reikninganna.
Landsbanki Íslands hf. er nú í slitameðferð. Unnið er að því að innheimta kröfur og selja eignir bankans. Fjármunir frá bankanum ganga með tímanum upp í skuldir hans í tiltekinni röð. Þar njóta innstæðutryggingar forgangs. Hins vegar er óvíst hve mikið fæst upp í kröfur og hvenær þeir fjármunir skila sér. Gert er ráð fyrir að nokkurn tíma taki að innheimta kröfur og selja eignir en áætlanir miða við að því verði að miklu leyti lokið 2016.
Samkvæmt Icesave-samningunum gengst íslenska ríkið í ábyrgð fyrir eftirstöðvum skuldbindingar Tryggingarsjóðsins og vaxtagreiðslum af höfuðstóli kröfunnar.