3.1.7 Efnahagslegir fyrirvarar
Með ákvæði um skaðleysi er áhersla lögð á að Landsbankinn eða bú hans beri fyrst og fremst ábyrgð á að mæta sjálfur þeim kröfum sem á hann standa, en ábyrgð ríkisins fyrir hönd almennings á eftirstöðvunum komi ekki til fyrr en búi bankans hefur að mestu verið skipt og eignir hans nýttar í þessu skyni. Ýmsar ráðstafanir hafa jafnframt verið gerðar til að tryggja að fjárhagsleg byrði af greiðslu eftirstöðvanna verði ríkissjóði ekki of þungbær, ef áætlanir um endurheimtur úr búi bankans ná ekki að fullu fram að ganga. Í því skyni vegur þyngst að tvenns konar efnahagslegir fyrirvarar eru settir við endurgreiðslu eftirstöðvanna:
– Annars vegar ræður fjárhæð eftirstöðvanna endurgreiðslutímanum. Þannig er miðað við að verði eftirstöðvarnar lægri en sem svarar 45 milljörðum kr. skulu þær gerðar upp í jöfnum ársfjórðungslegum greiðslum á 12 mánuðum frá 1. júlí 2016. Verði eftirstöðvarnar hærri en 45 milljarðar kr. bætist eitt ár við endurgreiðslutímann fyrir hverja 10 milljarða kr.
– Hins vegar má hámark árlegrar endurgreiðslu ekki fara yfir hærri fjárhæðina af tveimur eftirtöldum: 5% af heildartekjum ríkisins næstliðið ár eða 1,3% af vergri landsframleiðslu næstliðið ár.
Undir þessum kringumstæðum er ríkinu gert kleift að lengja lánstímann sjálfkrafa og greiðsluhámark hvers árs kemur í veg fyrir að gengið verði um of á skuldaþol ríkisins meðan efnahagslífið nær sér á strik. Endurgreiðslutíminn getur þó að hámarki verið framlengdur til ársins 2046 eða í 30 ár.
3.2.2 Efnahagslegir fyrirvarar
Til að mæta óvissu um hversu mikið endurheimtist úr búi Landsbankans og á hvaða tíma greiðslur til kröfuhafa berast úr búinu er bætt við nýjum efnahagslegum fyrirvörum í fyrirliggjandi samningum. Áhrif hinna efnahagslegu fyrirvara eru þau að greiðslubyrði ríkissjóðs mun haldast innan hóflegra marka undir öllum kringumstæðum. Fyrirvararnir eru skilgreindir nánar í kafla 3.1.7 hér að framan. Þeir fela í sér annars vegar sjálfkrafa lengingu endurgreiðslutímans eftir því sem eftirstöðvar eru hærri, og hins vegar þak á árlegar endurgreiðslur sem miðast við hærri fjárhæðina af:
a. 5% af tekjum ríkissjóðs á næstliðnu ári,
b. 1,3% af vergri landsframleiðslu næstliðins árs.
Taflan hér á eftir sýnir samspil endurgreiðslutíma og greiðslubyrði miðað við stighækkandi eftirstöðvar frá 0 í 60 milljarða kr. Heildargreiðslubyrði ásamt árlegum afborgunum og vaxtagreiðslum eru þær fjárhæðir sem falla til á einu ári talið frá júní 2016. Gert er ráð fyrir að gildandi CIRR-vextir verði 4%. Miðað við þessar forsendur yrði endurgreiðslutíminn að hámarki 3 ár.
Eftirstöðvar árið 2016 | -20 | 0 | 20 | 40 | 60 |
Endurgreiðslutími frá og með 2016 (ár) | 0 | 0 | 1 | 1 | 3 |
Árleg afborgun frá 2016 | 0 | 0 | 20 | 40 | 20 |
Árleg vaxtagreiðsla frá 2016 | 1 | 1 | 2 | 3 | 3 |
Árlegar greiðslur frá 2016 | 1 | 1 | 22 | 42 | 23 |
Rétt er að taka fram að erfitt er að gera áreiðanlega langtímaspá um vaxtaþróun. Forsendan um 4% vexti er því aðeins dæmi þar sem gert er ráð fyrir hærri vöxtum árið 2016 en núverandi CIRR-vextir segja til um. Á hinn bóginn má telja að niðurstaða er felur í sér að miðað skuli við CIRR-vexti sé ríkissjóði hagfelld og tæplega að vænta að unnt yrði að semja um hagstæðari vaxtakjör.