Engar breytingar voru í uppfærðri greinargerð og því er hér eingöngu birt upphafleg greinargerð.
3.1.6 Vextir á eftirstöðvunum 16. júní 2016
- Fyrirsögn er röng í greinargerð. Hið rétta er að CIRR vextir reiknast frá 1. júlí 2016
Vextir á þá fjárhæð sem eftir stendur 16. júní 2016 verða svokallaðir CIRR-vextir OECD í pundum vegna eftirstöðva endurgreiðslufjárhæðarinnar í Bretlandi og í evrum vegna endurgreiðslufjárhæðarinnar í Hollandi. Í báðum tilvikum yrði viðmiðunardagur vaxtanna 16. júní 2016 og þeir reiknaðir út að teknu tilliti til fjárhæðar eftirstöðvanna og lengdar endurgreiðslutímans.
CIRR-vextir eru reiknaðir út mánaðarlega af OECD fyrir þrjú mismunandi tímabil. Tímabilin eru skilgreind fyrir skuldbindingar með endurgreiðslutíma sem er styttri en 5 ár, milli 5 og 8½ ár og lengri en 8½ ár og eru vextir mismunandi eftir gjaldmiðlum. Í hverjum mánuði er tekin meðaltalsávöxtunarkrafa af tilteknum ríkisskuldabréfum í myntsvæði viðeigandi gjaldmiðils fyrir þann mánuð sem er að líða. Valin eru ríkisskuldabréf með endurgreiðslutíma sem samsvarar hinum fyrrnefndu tímabilum. Að lokum er hundrað punktum bætt við útreiknaða ávöxtunarkröfu.
CIRR-vextir endurspegla því lægstu vaxtakjör sem heimilt er að bjóða í svokallaðri útflutningsfjármögnun. Ágóði af útflutningsláni rennur aftur til lögsögu þess ríkis sem veitti lánið þar sem lántakandi greiðir fyrir vöru eða þjónustu í því ríki. Á sama hátt munu þeir fjármunir sem Bretar og Hollendingar lögðu fram vegna lágmarkstryggingar á Icesave-reikningunum eingöngu renna til lögsögu þeirra ríkja. Íslenska samninganefndin taldi því eðlilegt að miða vexti sem eftirstöðvarnar bera við sömu vexti og lán sem þessi ríki veita til útflutnings.