undirsida_lomagnupur02.jpg
undirsida_thingvellir_02.jpg
AÐGENGI

Táknmálsþýðing

Spurning nr. 3 – Þjóðkirkja

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

       Já

       Nei

Hér er leitað eftir afstöðu kjósanda til þess hvort hann vilji að áfram verði ákvæði í stjórnarskrá um þjóðkirkju íslensku þjóðarinnar. Ekki er spurt um aðskilnað ríkis og núverandi þjóðkirkju.

Núgildandi fyrirkomulag

Í 62. grein stjórnarskrárinnar segir að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. Þessu má breyta með lögum sem er undantekning frá því sem almennt gildir um stjórnarskrárbreytingar. Sú sérregla gildir þó samkvæmt 2. málsgrein 79. greinar stjórnarskrárinnar að breytingar á kirkjuskipan ríkisins eru háðar samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekki er nánar lýst í stjórnarskránni í hverju stuðningur og vernd við þjóðkirkjuna felst en lýsing á því kemur fram í almennum lögum, einkum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Litið hefur verið svo á að vegna sérstakrar stöðu sinnar hafi þjóðkirkjan ákveðnar skyldur í íslensku samfélagi sem henni ber að rækja gagnvart öllum almenningi en ekki aðeins þeim sem eru í söfnuði hennar.

Tillögur stjórnlagaráðs

Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því í 19. grein að kirkjuskipan ríkisins verði ekki ákveðin í stjórnarskrá og þjóðkirkjunnar verði því ekki lengur getið þar.

Lagt er til að kirkjuskipan verði ákveðin með almennum lögum og breytingar á þeim lögum skuli lagðar í þjóðaratkvæði þannig að þjóðin hafi áfram rétt til að taka beina afstöðu til málefnisins eins og stjórnarskráin tryggir nú. Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu yrði þá bætt inn í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og héldu lögin að öðru leyti áfram gildi sínu.

Í skýringum við tillögu stjórnlagaráðs segir að tilgangur greinarinnar sé að auðvelda löggjafar- og framkvæmdarvaldi að taka í framtíðinni ákvörðun um kirkjuskipan á Íslandi. Sú ákvörðun muni hafa í för með sér þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin sjálf ákveður hvernig hún vill haga þessu máli í framtíðinni.

Umræður og álitamál

Þjóðkirkju- eða ríkiskirkjuskipan er við lýði víða í Evrópu. Íslenska stjórnarskrárákvæðið um efnið er rakið til dönsku stjórnarskrárinnar þar sem efnislega samhljóða ákvæði stendur enn í dönsku stjórnarskránni frá 1953. Þetta fyrirkomulag hefur, samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. október 2007, máli nr. 109/2007. talist samræmast trúfrelsis- og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum mannréttindasamningum, sem Ísland hefur fullgilt, svo lengi sem það skerðir ekki rétt manna til að aðhyllast aðra trú, stofna trúfélög eða standa utan þjóðkirkju og trúfélaga og einstaklingum er ekki mismunað af þeirri ástæðu.

Reglur stjórnarskrár eru sáttmáli um skipulag ríkisins og stöðu þegnanna innan þess. Þessar reglur eru því mikilvægari en aðrar og ganga framar almennum lögum. Ákvæði í stjórnarskrá um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi hefur í för með sér að þjóðkirkjunni er fengið hlutverk sem hluti af stjórnarskrárbundinni þjóðfélagsskipan.

Skiptar skoðanir voru um málið meðal sérfræðinga sem stjórnlagaráð leitaði til. Sumir telja að með því að fella burt ákvæði um þjóðkirkju úr stjórnarskránni og kveða á um kirkjuskipan í almennum lögum sé verið að taka fyrstu skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju. Aðrir hafa látið í ljós þá skoðun að ekki sé hægt að fella niður þjóðkirkjuákvæði án þess að leggja þá ákvörðun í bindandi þjóðaratkvæði í samræmi við 2. málsgrein 79. greinar stjórnarskrárinnar þar sem það feli í sér breytta kirkjuskipan. Enn aðrir telja niðurfellinguna standast eins og tillagan gerir ráð fyrir.

Sjá 62. gr. stjórnarskrárinnar og 19. gr. tillagna stjórnlagaráðs hér

Annað efni sem tengist umfjöllun um þjóðkirkjuna:

Deildu