undirsida_haust01.jpg
undirsida_lomagnupur01.jpg
AÐGENGI

Táknmálsþýðing

Spurning nr. 1 – Tillögur stjórnlagaráðs og skýringartexti á kjörseðli

1. Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

       Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

       Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Í fyrstu spurningunni er leitað eftir afstöðu kjósanda til þess hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar verði lagt fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá á Alþingi.

Núgildandi fyrirkomulag

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 17. júní 1944 á rætur að rekja til stjórnarskráa frá 1874 og 1920. Við lýðveldisstofnunina var ekki öðru breytt en því sem nauðsynlegt var vegna sambandsslita við Danmörku. Ein meginbreytingin, sem þá var gerð, fólst í synjunarvaldi forseta samkvæmt 26. grein. Til stóð að endurskoða stjórnarskrána síðar.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni á umliðnum áratugum. Ákvæðum um kosningar og kjördæmaskipan hefur verið breytt oftast, síðast 1999. Þá voru breytingar gerðar árið 1991 er varða störf Alþingis og árið 1995 var nýr mannréttindakafli samþykktur. Tilraunir til heildarendurskoðunar á stjórnarskránni hafa ekki borið árangur.

Tillögur stjórnlagaráðs

Tillögur stjórnlagaráðs gera ráð fyrir að ný stjórnarskrá Íslands verði sett og er efnisskipan og framsetningu breytt frá gildandi stjórnarskrá í veigamiklum atriðum. Samkvæmt tillögunum mun greinum stjórnarskrárinnar fjölga úr 81 í 114. Auk aðfaraorða skiptist texti hennar í níu kafla: um undirstöður; mannréttindi og náttúru; Alþingi; forseta Íslands; ráðherra og ríkisstjórn; dómsvald; sveitarfélög; utanríkismál og lokaákvæði. Í inngangskafla skýringa, sem fylgja tillögunum, er að finna yfirlit um meginefni þeirra og helstu breytingar sem felast í þeim frá gildandi stjórnarskrá.

Í skýringum með tillögum stjórnlagaráðs segir meðal annars að ráðið hafi haft þrjú leiðarstef í störfum sínum: valddreifingu, gegnsæi og ábyrgð. Við endurskoðun á valdþáttum og valdmörkum ríkisins er lögð áhersla á að öllu valdi fylgi ábyrgð.

Ekki eru tök á að fjalla hér efnislega um öll einstök ákvæði, nýmæli eða breytingar í tillögum stjórnlagaráðs.

Nánari upplýsingar um tillögur stjórnlagaráðs, skýringar og athugasemdir, má sjá hér og eru kjósendur hvattir til að kynna sér þær nánar.

Umræður og álitamál

Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að endurskoða tiltekna þætti stjórnarskrárinnar. Hins vegar hefur verið ágreiningur um hvort byggja eigi á núgildandi stjórnarskrá eða semja nýja stjórnarskrá frá grunni. Stjórnmálaflokkar, sem nú sitja á Alþingi, hafa ekki sammælst um að halda áfram sameiginlegri vinnu á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, meðal annars vegna deilna um þetta atriði.

Ráðgefandi atkvæðagreiðsla

Eins og áður segir er niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar ráðgefandi. Stjórnarskrá Íslands verður eingöngu breytt sé breytingin samþykkt á tveimur þingum og fari alþingiskosningar fram í millitíðinni. Þessu ferli er lýst í 79. grein stjórnarskrárinnar og birtist einnig í eftirfarandi skýringartexta á kjörseðlinum sjálfum: 

„Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“

Alþingi getur því ekki framselt löggjafarvald sitt með bindandi hætti og var stjórnlagaráði í samræmi við ákvæði stjórnarskrár „falið ráðgefandi hlutverk við Alþingi“, eins og segir í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Fer því um meðferð málsins á Alþingi samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár, lögum um þingsköp Alþingis, og nánari ákvörðunum og samþykktum sem Alþingi kann að gera um málsmeðferðina.

Ekki liggur enn fyrir hvort lagt verði fram stjórnarskrárfrumvarp á Alþingi eða hver muni gera það en rétt til þess hafa einstakir þingmenn og ráðherrar svo og ríkisstjórnin.

Frá því að stjórnlagaráð skilaði Alþingi tillögum sínum að nýrri stjórnarskrá sumarið 2011 hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis haft þær til umfjöllunar. Nefndinni hafa borist fjölmargar umsagnir og athugasemdir við tillögurnar, sjá hér, og hún hefur rætt við ýmsa sérfræðinga um efni þeirra, sjá fundi nefndar hér. Þá fól nefndin starfshópi fjögurra lögfræðinga að fara yfir tillögurnar í heild í maí sl. Sú vinna stendur nú yfir og henni lýkur eftir að þjóðaratkvæðagreiðslan hefur farið fram. Starfshópnum var falið að skoða og fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, meðal annars með tilliti til mannréttindasáttmála sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að fara eftir, innra samræmis og mögulegra mótsagna, réttarverndar miðað við gildandi stjórnarskrá og greinargerð með tillögum, málssóknamöguleika gegn ríkinu.

Athugasemdir starfshópsins eða umsagnir annarra, sem þegar hafa komið fram eða koma fram síðar, geta leitt til þess að Alþingi breyti, umorði eða felli niður tiltekin ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs eða bæti inn nýjum við meðferð stjórnarskrárfrumvarps.

Ferlið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu

Það er lögbundin meðferð allra frumvarpa á Alþingi að þau geta breyst í meðförum þingsins, ýmist í kjölfar skriflegra eða munnlegra athugasemda eða umræðna á Alþingi. Það á einnig við um stjórnarskrárfrumvarp hvort sem það verður lagt fram með breytingum eða óbreytt miðað við tillögur stjórnlagaráðs.

Rjúfa ber Alþingi og stofna til almennra þingkosninga ef samþykktar eru breytingar á stjórnarskrá. Venja er því að breytingar á stjórnarskrá séu ekki afgreiddar fyrr en við lok kjörtímabils. 

Sjá tillögur stjórnlagaráðs og texta stjórnarskrár Íslands hér.

Deildu