undirsida_haust01.jpg
undirsida_lomagnupur01.jpg
AÐGENGI

Táknmálsþýðing

Spurning nr. 6 - Þjóðaratkvæðagreiðslur

6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

       Já

       Nei

Markmið spurningar um þjóðaratkvæðagreiðslur er að kanna afstöðu kjósanda til þess hvort stjórnarskráin eigi að mæla fyrir um að tiltekið hlutfall, þ.e. ákveðin prósentutala kjósenda á kjörskrá, geti átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Ekki er spurt um hversu hátt hlutfallið skuli vera.

Núgildandi fyrirkomulag

Í stjórnarskrá Íslands eru engin ákvæði um að kjósendur geti átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru fremur fátíðar í Evrópuríkjum en þeim hefur fjölgað á síðustu áratugum, meðal annars í tengslum við aðild ríkja að Evrópusambandinu. Á Íslandi er ekki rík hefð fyrir því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu til að leita eftir áliti þjóðarinnar um tiltekin málefni eða virkja þær heimildir sem stjórnarskráin veitir til að vísa málum í þjóðaratkvæði. Þróun undangenginna áratuga hér á landi hefur verið svipuð og á öðrum Norðurlöndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru hugsaðar sem ákveðinn varnagli gagnvart fulltrúalýðræðinu og efnt til þeirra við sérstakar aðstæður.

Tillögur stjórnlagaráðs

Í 65. grein tillagna stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að 10% kjósenda geti krafist bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Sama hlutfall kjósenda geti haft frumkvæði að því að leggja fram þingmál á Alþingi sem síðan skuli borið undir þjóðina í bindandi eða ráðgefandi atkvæðagreiðslu að vali Alþingis samkvæmt 66. grein. Kveðið er á um það í 67. grein tillagnanna að mál, sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda, skuli varða almannahag og tilgreint hvaða málaflokkar séu undanþegnir slíkum ákvæðum.

Umræður og álitamál

Í sumum ríkjum, til dæmis í Sviss og á Ítalíu, eru þjóðaratkvæðagreiðslur algengar en þar geta kjósendur átt frumkvæði að því að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá. Slík ákvæði eru ekki í stjórnarskrám Norðurlanda.

Á Íslandi er að finna ákvæði í 108. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011um frumkvæði íbúa sveitarfélags til að óska eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið málefni. Samkvæmt því skal sveitarstjórn verða við slíkri ósk ef 20% kjósenda í sveitarfélagi krefjast atkvæðagreiðslunnar.

Helstu rök fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum eru að auka þátttöku og skilning kjósenda á þeim málum sem fjallað er um. Þjóðaratkvæðagreiðslur geta einnig upplýst stjórnvöld um óskir kjósenda og komið á dagskrá málefnum sem ekki hafa vakið áhuga stjórnmálamanna. Í sumum tilvikum geta þjóðaratkvæðagreiðslur verið leið til að útkljá deiluefni sem erfitt er að leysa með öðrum hætti. 

Helstu rök gegn fjölgun þjóðaratkvæðagreiðslna eru að þær geti valdið minni kjörsókn og ýtt undir tilhneigingu til að skoða mál ekki í samhengi heldur hvert fyrir sig. Afstaða til annars en þess sem kosið er um hefur stundum áhrif á úrslit þjóðaratkvæðagreiðslna, t.d. afstaða til ríkisstjórnar, og fjársterkir aðilar eða fjölmiðlar geta haft mikil áhrif. Í sumum tilvikum ráða stjórnvöld síðan sjálf hvernig úrslitin eru túlkuð.

Sjá 65., 66. og 67. greinar gr. stjórnarskrárinnar tillagna stjórnlagaráðs hér.

Sjá annað efni sem tengist umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur:

Deildu