undirsida_thingvellir_01.jpg
undirsida_thingvellir_01.jpg
AÐGENGI

Táknmálsþýðing

Spurning nr. 5 – Atkvæðavægi

5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

       Já

       Nei

Hér er spurt hvort atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu eigi að vega jafnt. Ekki er spurt hvort landið skuli vera eitt eða fleiri kjördæmi.

Misvægi eða jafnt vægi atkvæða

Misvægi atkvæða þýðir að í einu kjördæmi þarf fleiri atkvæði til þess að fá þingmann kosinn en í öðru. Í alþingiskosningum 2009 voru 2.366 kjósendur á kjörskrá að baki hverjum kjörnum þingmanni í Norðvesturkjördæmi en 4.850 í Suðvesturkjördæmi. Þingmaður í Suðvesturkjördæmi þurfti þannig að fá ríflega tvöfalt fleiri atkvæði en þingmaður í Norðvesturkjördæmi til að ná kjöri.

Jafnt vægi atkvæða þýðir að slíkur munur er ekki á milli kjördæma. Í alþingiskosningum 2009 voru kjósendur á kjörskrá að baki hverjum kjörnum þingmanni í Reykjavíkurkjördæmi suður 3.977 en 3.979 í Reykjavíkurkjördæmi norður. Milli þessara tveggja kjördæma var því jafnt vægi atkvæða.

Núverandi fyrirkomulag

Allt frá fyrstu alþingiskosningunum 1844 hafa Íslendingar búið við misvægi atkvæða eftir kjördæmum en það hefur þó minnkað á undanförnum árum. 

Samkvæmt 5. málsgrein 31. greinar stjórnarskrárinnar má atkvæðamisvægi ekki vera meira en einn á móti tveimur og þingsæti færast milli kjördæma ef enn meira misvægi skapast. Það gerðist árin 2003 og 2009 í Norðvesturkjördæmi. Við næstu alþingiskosningar mun eitt þingsæti færast frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis þar sem verða þá 13 sæti en voru 12 árið 2009. Þingmenn Norðvesturkjördæmis verða þar af leiðandi átta í næstu kosningum en voru níu árið 2009.

Tillögur stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð leggur til í 39. grein að öll atkvæði á landinu vegi jafnt. Alþingi geti ákveðið að landið verði eitt kjördæmi en því sé líka heimilt að skipta landinu í kjördæmi og þá þannig að hluti þingmanna verði kosinn í kjördæmum, mest 30 þingmenn af 63. Í skýringum með tillögunni segir að um sé að ræða efnislega nýja reglu sem kveður á um að atkvæðavægi kjósenda alls staðar á landinu skuli vera það sama. Farinn sé viss meðalvegur í því hvort landið skuli vera eitt kjördæmi eða ekki þannig að frambjóðendur geti beint framboði sínu að afmörkuðum svæðum eða kjördæmum en kjósendum standi samt allir frambjóðendur landsins til boða.

Umræður og álitamál

Öll Norðurlöndin nema Færeyjar kjósa þingmenn úr kjördæmum og sama á við um flest önnur vestræn lýðræðisríki. Í kjördæmakerfi er flókið að tryggja jafnvægi milli kjördæma. Unnt er þó að ná meira atkvæðajafnvægi en nú er og jafnvel nokkurn veginn jöfnu vægi atkvæða í slíku kerfi. 

Helstu rök fyrir jöfnu vægi atkvæða á bak við hvern þingmann eftir landshlutum eru þau að eðlilegt sé að atkvæði allra kjósenda vegi jafnt, óháð búsetu og öðrum félagslegum þáttum.

Helstu rök fyrir misvægi atkvæða eru að áhrif  þéttbýlis séu of mikil á kostnað dreifbýlis. Eðlilegt sé því að íbúar dreifðra byggða, fjarri aðsetri stjórnsýslu og ríkisvalds, hafi fleiri þingmenn á Alþingi en fólksfjöldinn einn segir til um. 

Sjá 31. gr. stjórnarskrárinnar og 39. gr. tillagna stjórnlagaráðs hér.

Sjá annað efni sem tengist umfjöllun um atkvæðavægi:

Deildu