myndir26.jpg
 
 
Þú ert hérna: Bakgrunnur Landsbanki Íslands hf. og Icesave
 
 

Landsbanki Íslands hf. og Icesave

Lesa textann

You must have Flash Player installed in order to see this player.

Táknmálsþýðing

Landsbanki Íslands hf. rak útibú í Bretlandi og Hollandi.  Stofnað var til þessarar starfsemi á grundvelli laga nr. 161/2002.  Útibú banka, sem eru staðsett í öðrum ríkjum, eru undir ákveðnu eftirliti stjórnvalda í heimaríki bankans. Bankinn bauð viðskiptavinum sínum að leggja inn á reikninga sem nefndir voru Icesave.  Byrjað var að taka við innlánum í Bretlandi í október 2006 og í Hollandi í maí 2008. Greitt var í Tryggingarsjóðinn á Íslandi, heimaríki bankans, vegna þessara reikninga. Þessu er á annan veg farið þegar banki stofnar dótturfyrirtæki í öðru ríki.  Þá ábyrgist tryggingarsjóður þess ríkis innstæðutryggingar reikningseigenda.

Við bankahrunið á Íslandi, í október 2008, gat Landsbanki Íslands hf. ekki greitt eigendum Icesave-reikninga út innstæður sínar.  Fjármálaeftirlitið gaf út álit þessa efnis og við það tímamark varð greiðsluskylda Tryggingarsjóðsins á Íslandi virk.  Í kjölfarið  ákváðu yfirvöld í Bretlandi að bæta almennum viðskiptavinum bankans tjón þeirra að fullu og í Hollandi var viðskiptavinum bankans bætt tjónið að ákveðnu marki umfram lágmarksinnstæðutryggingar. Síðan var krafist endurgreiðslu á lágmarksinnstæðutryggingunum. Um þær endurgreiðslur er fjallað í Icesave-samningunum.

Tryggingarsjóðurinn á einungis fjármuni sem svara til lítils hluta af innstæðutryggingum vegna Icesave-reikninganna. 

Landsbanki Íslands hf. er nú í greiðslustöðvun og slitameðferð. Unnið er að því að innheimta kröfur og selja eignir bankans. Fjármunir frá bankanum ganga með tímanum upp í skuldir hans í tiltekinni röð. Þar eru innstæðutryggingar framarlega. Hins vegar er óvíst hve mikið fæst upp í skuldir og hvenær þeir fjármunir skila sér enda er gert ráð fyrir að nokkurn tíma taki að selja eignirnar.