myndir25.jpg
 
 
Þú ert hérna: Ríkisábyrgð
 
 
Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa

Ríkisábyrgð

Lesa textann

You must have Flash Player installed in order to see this player.

Táknmálsþýðing

Samningar
Samningarnir um Icesave-reikningana eru lánasamningar frá 5. júní 2009 með viðaukum frá 19. október 2009. Saman mynda þeir eina heild og eru hér kallaðir Icesave-samningarnir. Skuldari er Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, ábyrgðaraðili er íslenska ríkið og lánveitendur eru annars vegar breska ríkið og hins vegar hollenska ríkið.

Löggjöf
Þar sem íslenska ríkið er ábyrgðaraðili samkvæmt samningunum þarf Alþingi að setja lög sem heimila ríkisábyrgð, fyrr geta þeir ekki tekið gildi.

Eftir að lánasamningarnir frá 5. júní höfðu verið gerðir samþykkti Alþingi lög nr. 96/2009 um heimild til að veita ríkisábyrgð en að auki skilyrði og fyrirvara sem ekki komu fram í samningunum. Þeir gátu því ekki tekið gildi og samningaviðræður hófust að nýju. Niðurstaðan af þeim viðræðum er í viðaukum sem gerðir voru við lánasamningana 19. október 2009.

Í kjölfar viðaukanna setti Alþingi lög nr. 1/2010 sem nú verða greidd atkvæði um. Lögin breyta tilteknum ákvæðum í lögum nr. 96/2009 og heimila íslenskum stjórnvöldum að veita ríkisábyrgð á þann hátt sem gert er ráð fyrir í Icesave-samningunum eins og þeim var breytt í október. Verði lög nr. 1/2010 samþykkt geta Icesave-samningarnir tekið gildi.

Verði lögum nr. 1/2010 hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu gilda eldri lögin óbreytt. Icesave-samningarnir, hvort heldur er frá júní eða október 2009, taka að öllu óbreyttu ekki gildi á grundvelli þeirra. Ástæðan er sú að ríkisábyrgðin samkvæmt lögum nr. 96/2009 er ekki í fullu samræmi við ákvæði samninganna.

Fjárhæðir
Greiða skal Hollendingum 1,33 milljarða evra og Bretum 2,35 milljarða sterlingspunda. Þetta er hluti af því fé sem stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa greitt út til viðskiptavina Landsbanka Íslands hf. í löndunum tveimur. Til frádráttar þessum fjárhæðum munu koma greiðslur frá Landsbanka Íslands hf. sem lækka höfuðstól lánanna þegar þær berast. Ekki liggur fyrir hversu háar þær greiðslur verða en áætlanir þar um og fleiri útreikninga er hægt að  kynna sér hér.

Helstu skilmálar
  • Fyrstu sjö árin eru án afborgana.
  • Vextir eru fastir, 5,55%, og reiknast frá 1. janúar 2009.
  • Gjalddagi fyrstu afborgunar og vaxta er 5. september 2016.
  • Lánstími getur orðið til 5. júní 2024 ef greiðslur afborgana og vaxta eru innan árlegs greiðsluhámarks.
  • Fari afborganir og vextir samanlagt upp fyrir hámarkið lækkar afborgun af höfuðstól lánanna. Alltaf þarf þó að greiða vexti.
  • Ef nauðsynlegt reynist er mögulegt að framlengja lánstímann til ársins 2030 og eftir það um fimm ár í senn.

Unnt er að óska eftir endurskoðun samninganna ef úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýnir að skuldaþoli Íslands hafi hrakað miðað við mat sjóðsins frá 19. nóvember 2008. 

Rísi ágreiningur um túlkun og framkvæmd samninganna skal fara með málið fyrir enskan dómstól og ensk lög gilda.

Hér má finna ýmis skjöl sem tengjast málinu.