Táknmálsþýðing
Greidd verða atkvæði um lög nr. 1/2010 sem Alþingi samþykkti 30. desember 2009 en forseti Íslands neitaði að staðfesta 5. janúar 2010. Lögin eru um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu. Lög nr. 1/2010 breyta lögum nr. 96/2009 um sama efni. Lánin eiga að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Um þau hefur verið samið í svokölluðum Icesave-samningum.
Markmið atkvæðagreiðslunnar er að fá fram afstöðu þjóðarinnar til laga nr. 1/2010 eins og stjórnarskráin mælir fyrir um. Á kjörseðli verður spurt hvort lögin eigi að halda gildi eða falla úr gildi. Meirihluti atkvæða af landinu öllu ræður úrslitum og vægi atkvæða er jafnt. Ef meirihluti svarar játandi halda lögin gildi sínu. Ef meirihluti svarar neitandi falla lögin úr gildi.