Spurningarnar á kjörseðlinum - umfjöllun og skýringar
Í fyrstu spurningunni er leitað eftir afstöðu kjósanda til þess hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar verði lagt fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá á Alþingi. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 17. júní 1944 á rætur að rekja til stjórnarskráa frá 1874 og 1920. Við lýðveldisstofnunina var ekki öðru breytt en því sem nauðsynlegt var vegna sambandsslita við Danmörku. Ein meginbreytingin, sem þá var gerð, fólst í synjunarvaldi forseta samkvæmt 26. grein. Til stóð að endurskoða stjórnarskrána síðar. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni á umliðnum áratugum. Ákvæðum um kosningar og kjördæmaskipan hefur verið breytt oftast, síðast 1999. Þá voru breytingar gerðar árið 1991 er varða störf Alþingis og árið 1995 var nýr mannréttindakafli samþykktur. Tilraunir til heildarendurskoðunar á stjórnarskránni hafa ekki borið árangur. Tillögur stjórnlagaráðs gera ráð fyrir að ný stjórnarskrá Íslands verði sett og er efnisskipan og framsetningu breytt frá gildandi stjórnarskrá í veigamiklum atriðum. Samkvæmt tillögunum mun greinum stjórnarskrárinnar fjölga úr 81 í 114. Auk aðfaraorða skiptist texti hennar í níu kafla: um undirstöður; mannréttindi og náttúru; Alþingi; forseta Íslands; ráðherra og ríkisstjórn; dómsvald; sveitarfélög; utanríkismál og lokaákvæði. Í inngangskafla skýringa, sem fylgja tillögunum, er að finna yfirlit um meginefni þeirra og helstu breytingar sem felast í þeim frá gildandi stjórnarskrá. Í skýringum með tillögum stjórnlagaráðs segir meðal annars að ráðið hafi haft þrjú leiðarstef í störfum sínum: valddreifingu, gegnsæi og ábyrgð. Við endurskoðun á valdþáttum og valdmörkum ríkisins er lögð áhersla á að öllu valdi fylgi ábyrgð. Ekki eru tök á að fjalla hér efnislega um öll einstök ákvæði, nýmæli eða breytingar í tillögum stjórnlagaráðs. Nánari upplýsingar um tillögur stjórnlagaráðs, skýringar og athugasemdir, má sjá hér og eru kjósendur hvattir til að kynna sér þær nánar. Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að endurskoða tiltekna þætti stjórnarskrárinnar. Hins vegar hefur verið ágreiningur um hvort byggja eigi á núgildandi stjórnarskrá eða semja nýja stjórnarskrá frá grunni. Stjórnmálaflokkar, sem nú sitja á Alþingi, hafa ekki sammælst um að halda áfram sameiginlegri vinnu á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, meðal annars vegna deilna um þetta atriði. Eins og áður segir er niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar ráðgefandi. Stjórnarskrá Íslands verður eingöngu breytt sé breytingin samþykkt á tveimur þingum og fari alþingiskosningar fram í millitíðinni. Þessu ferli er lýst í 79. grein stjórnarskrárinnar og birtist einnig í eftirfarandi skýringartexta á kjörseðlinum sjálfum: „Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“ Alþingi getur því ekki framselt löggjafarvald sitt með bindandi hætti og var stjórnlagaráði í samræmi við ákvæði stjórnarskrár „falið ráðgefandi hlutverk við Alþingi“, eins og segir í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Fer því um meðferð málsins á Alþingi samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár, lögum um þingsköp Alþingis, og nánari ákvörðunum og samþykktum sem Alþingi kann að gera um málsmeðferðina. Ekki liggur enn fyrir hvort lagt verði fram stjórnarskrárfrumvarp á Alþingi eða hver muni gera það en rétt til þess hafa einstakir þingmenn og ráðherrar svo og ríkisstjórnin. Frá því að stjórnlagaráð skilaði Alþingi tillögum sínum að nýrri stjórnarskrá sumarið 2011 hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis haft þær til umfjöllunar. Nefndinni hafa borist fjölmargar umsagnir og athugasemdir við tillögurnar, sjá hér, og hún hefur rætt við ýmsa sérfræðinga um efni þeirra, sjá fundi nefndar hér. Þá fól nefndin starfshópi fjögurra lögfræðinga að fara yfir tillögurnar í heild í maí sl. Sú vinna stendur nú yfir og henni lýkur eftir að þjóðaratkvæðagreiðslan hefur farið fram. Starfshópnum var falið að skoða og fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, meðal annars með tilliti til mannréttindasáttmála sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að fara eftir, innra samræmis og mögulegra mótsagna, réttarverndar miðað við gildandi stjórnarskrá og greinargerð með tillögum, málssóknamöguleika gegn ríkinu. Athugasemdir starfshópsins eða umsagnir annarra, sem þegar hafa komið fram eða koma fram síðar, geta leitt til þess að Alþingi breyti, umorði eða felli niður tiltekin ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs eða bæti inn nýjum við meðferð stjórnarskrárfrumvarps. Það er lögbundin meðferð allra frumvarpa á Alþingi að þau geta breyst í meðförum þingsins, ýmist í kjölfar skriflegra eða munnlegra athugasemda eða umræðna á Alþingi. Það á einnig við um stjórnarskrárfrumvarp hvort sem það verður lagt fram með breytingum eða óbreytt miðað við tillögur stjórnlagaráðs. Rjúfa ber Alþingi og stofna til almennra þingkosninga ef samþykktar eru breytingar á stjórnarskrá. Venja er því að breytingar á stjórnarskrá séu ekki afgreiddar fyrr en við lok kjörtímabils. Sjá tillögur stjórnlagaráðs og texta stjórnarskrár Íslands hér. Hér er spurt hvort náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, skuli lýstar þjóðareign. Í spurningunni er ekki skilgreint hvaða merkingu hugtakið þjóðareign hefur eða hvað telst til náttúruauðlinda. Í stjórnarskrá Íslands er ekki ákvæði um eignarhald á náttúruauðlindum, nýtingu þeirra eða meðferð að öðru leyti en því að 2. málsgrein 72. greinar stjórnarskrárinnar heimilar að réttur erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi sé takmarkaður. Löggjafanum er heimilt að setja reglur um meðferð, nýtingu og eignarhald á auðlindum hvort sem þær eru í einkaeigu, ríkiseigu eða eru eigendalausar. Ýmsar reglur um eignarhald á auðlindum, t.d. eignarhald ríkisins á þjóðlendum og auðlindum hafsbotnsins, svo og meðferð auðlinda, t.d. kvótakerfi í fiskveiðum í sjó, er þannig að finna í almennum lögum. Í 34. grein tillagna stjórnlagaráðs um náttúruauðlindir er kveðið á um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota, aldrei megi selja þær eða veðsetja og þær verði nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Af skýringum stjórnlagaráðs við tillöguna má ráða að hugtakinu þjóðareign er ætlað að skapa eignarrétt í lagalegri merkingu. Ákvæðinu er ætlað að stofna til sérstakrar tegundar eignarréttar yfir auðlindum þar sem eignarrétti einkaaðila sleppir. Auk þess er fullveldisréttur íslenska ríkisins yfir náttúruauðlindum íslensks yfirráðasvæðis áréttaður. Í tillögunum eru náttúruauðlindir í þjóðareign skilgreindar sem hvers kyns náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Þá má ákveða í almennum lögum að auðlindir undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar verði þjóðareign. Í skýringum segir að talin séu upp dæmi um helstu tegundir auðlinda í þjóðareigu en upptalningunni sé ekki ætlað að vera tæmandi. Undanfarin ár og áratugi hefur í ýmsum Evrópuríkjum verið kveðið á um eignarrétt ríkisins eða þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá. Hins vegar hafa slík ákvæði ekki ætíð sömu merkingu eða stefna að sömu markmiðum. Skiptar skoðanir hafa verið hérlendis um útfærslu slíks ákvæðis í stjórnarskrá. Með náttúruauðlind er venjulega átt við hvers kyns þætti náttúrunnar, jarðarinnar, lífríkisins, vatns, sjávar, lofts eða sólarljóss sem falið geta í sér verðmæti. Þegar um er að ræða nýtingu villtra dýra getur nýtingar- eða veiðiréttur verið í einka- eða ríkiseigu. Hins vegar geta villt dýr, t.d. óveiddur fiskur, strangt til tekið ekki verið eign í venjulegum skilningi nema dýrin séu veidd eða tekin í vörslur. Á þessum grundvelli hefur verið bent á að ekki sé ljóst hvaða gæði falli undir hugtakið þjóðareign ef henni er ætlað að stofna til eiginlegs eignarréttar. Þá hefur því einnig verið haldið fram að „þjóðin“ sé of óákveðinn hópur til að geta talist eigandi einhvers. Þjóðareign sé því í raun ríkiseign. Tillögur um auðlindaákvæði í stjórnarskrá má rekja a.m.k. aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar hér á landi. Í þeim tillögum hefur hugtakið „eign þjóðarinnar“, „þjóðareign“ eða „sameign þjóðarinnar“ þó ekki ætíð verið notað í sömu merkingu. Annars vegar hefur hugtakið verið látið vísa til eignarréttar í lagalegum skilningi og þá þannig að í þjóðareign felst í raun eignarréttur ríkisins. Jafnan hefur verið gerður sá fyrirvari í þeim tillögum að eingöngu auðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, teljist til þjóðareignar. Á hinn bóginn hefur með hugtakinu verið vísað til þess að fullveldisréttur íslenska ríksins feli í sér rétt ríkisins til að hlutast til um að náttúruauðlindir séu nýttar til hagsbóta þjóðinni allri. Í þeim tilvikum hefur hugtakið þjóðareign verið látið ná til hvers kyns náttúruauðlinda hvort heldur þær eru í einkaeigu, ríkiseigu eða eigendalausar. Sjá 34. grein tillagna stjórnlagaráðs hér. Hér er leitað eftir afstöðu kjósanda til þess hvort hann vilji að áfram verði ákvæði í stjórnarskrá um þjóðkirkju íslensku þjóðarinnar. Ekki er spurt um aðskilnað ríkis og núverandi þjóðkirkju. Í 62. grein stjórnarskrárinnar segir að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. Þessu má breyta með lögum sem er undantekning frá því sem almennt gildir um stjórnarskrárbreytingar. Sú sérregla gildir þó samkvæmt 2. málsgrein 79. greinar stjórnarskrárinnar að breytingar á kirkjuskipan ríkisins eru háðar samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki er nánar lýst í stjórnarskránni í hverju stuðningur og vernd við þjóðkirkjuna felst en lýsing á því kemur fram í almennum lögum, einkum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Litið hefur verið svo á að vegna sérstakrar stöðu sinnar hafi þjóðkirkjan ákveðnar skyldur í íslensku samfélagi sem henni ber að rækja gagnvart öllum almenningi en ekki aðeins þeim sem eru í söfnuði hennar. Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því í 19. grein að kirkjuskipan ríkisins verði ekki ákveðin í stjórnarskrá og þjóðkirkjunnar verði því ekki lengur getið þar. Lagt er til að kirkjuskipan verði ákveðin með almennum lögum og breytingar á þeim lögum skuli lagðar í þjóðaratkvæði þannig að þjóðin hafi áfram rétt til að taka beina afstöðu til málefnisins eins og stjórnarskráin tryggir nú. Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu yrði þá bætt inn í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og héldu lögin að öðru leyti áfram gildi sínu. Í skýringum við tillögu stjórnlagaráðs segir að tilgangur greinarinnar sé að auðvelda löggjafar- og framkvæmdarvaldi að taka í framtíðinni ákvörðun um kirkjuskipan á Íslandi. Sú ákvörðun muni hafa í för með sér þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin sjálf ákveður hvernig hún vill haga þessu máli í framtíðinni. Þjóðkirkju- eða ríkiskirkjuskipan er við lýði víða í Evrópu. Íslenska stjórnarskrárákvæðið um efnið er rakið til dönsku stjórnarskrárinnar þar sem efnislega samhljóða ákvæði stendur enn í dönsku stjórnarskránni frá 1953. Þetta fyrirkomulag hefur, samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. október 2007, máli nr. 109/2007. talist samræmast trúfrelsis- og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum mannréttindasamningum, sem Ísland hefur fullgilt, svo lengi sem það skerðir ekki rétt manna til að aðhyllast aðra trú, stofna trúfélög eða standa utan þjóðkirkju og trúfélaga og einstaklingum er ekki mismunað af þeirri ástæðu. Reglur stjórnarskrár eru sáttmáli um skipulag ríkisins og stöðu þegnanna innan þess. Þessar reglur eru því mikilvægari en aðrar og ganga framar almennum lögum. Ákvæði í stjórnarskrá um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi hefur í för með sér að þjóðkirkjunni er fengið hlutverk sem hluti af stjórnarskrárbundinni þjóðfélagsskipan. Skiptar skoðanir voru um málið meðal sérfræðinga sem stjórnlagaráð leitaði til. Sumir telja að með því að fella burt ákvæði um þjóðkirkju úr stjórnarskránni og kveða á um kirkjuskipan í almennum lögum sé verið að taka fyrstu skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju. Aðrir hafa látið í ljós þá skoðun að ekki sé hægt að fella niður þjóðkirkjuákvæði án þess að leggja þá ákvörðun í bindandi þjóðaratkvæði í samræmi við 2. málsgrein 79. greinar stjórnarskrárinnar þar sem það feli í sér breytta kirkjuskipan. Enn aðrir telja niðurfellinguna standast eins og tillagan gerir ráð fyrir. Sjá 62. gr. stjórnarskrárinnar og 19. gr. tillagna stjórnlagaráðs hér. Annað efni sem tengist umfjöllun um þjóðkirkjuna: Spurningin á kjörseðlinum snýst um hvort setja eigi í stjórnarskrá ákvæði um persónukjör sem gengur lengra en ákvæði núgildandi kosningalaga. Ekki er spurt um hversu langt eigi að ganga í útfærslu þess að heimila persónukjör í stjórnarskránni. Með persónukjöri er átt við að kjósandi geti kosið einstaka frambjóðendur, einn eða fleiri, af lista á kjörseðli í stað þess að kjósa á milli lista stjórnmálaflokka eins og tíðkast hefur í alþingiskosningum á Íslandi. Engin ákvæði um persónukjör eru í núgildandi stjórnarskrá. Samkvæmt 82. grein laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 er kjósendum þó heimilt að strika út frambjóðendur eða breyta röð á listanum sem þeir kjósa. Heimild til uppröðunar var rýmkuð með núgildandi kosningalögum en þá höfðu breytingar kjósenda á atkvæðaseðlum lítil sem engin áhrif haft í meira en hálfa öld. Í alþingiskosningum 2007 og 2009 færðust fjórir frambjóðendur niður um eitt sæti vegna breytinga sem kjósendur gerðu á listanum sem þeir kusu. Til að breyta röð frambjóðenda um eitt sæti með útstrikun, en það er sú aðferð sem langmest er notuð, þurfa 10-25% kjósenda viðkomandi lista að strika út sama nafnið samkvæmt gildandi ákvæðum. Vilji kjósendur tryggja frambjóðanda öruggt þingsæti eða að frambjóðandi í öruggu sæti falli út af þingi þarf meira til. Allt að helmingur kjósenda listans þarf þá að vera með sams konar útstrikun. Ákveðin tegund persónukjörs hefur farið fram á Íslandi frá því um 1970 með prófkjörum stjórnmálaflokkanna. Þátttaka í prófkjörum hin síðari ár hefur í flestum tilvikum verið bundin við flokksfélaga eða stuðningsmenn. Í tillögum stjórnlagaráðs er í 39. grein gert ráð fyrir því að röð frambjóðenda á lista stjórnmálaflokks hafi ekki áhrif á hvaða frambjóðendur séu kosnir af listanum heldur veljist frambjóðendur til þingsetu í samræmi við þann fjölda persónulegra atkvæða sem þeir hljóta. Þeir kjósendur sem eingöngu velja lista eftirláta þar með öðrum kjósendum að ákvarða röð frambjóðenda á listanum hvort sem margir eða fáir nýta þann möguleika. Gert er ráð fyrir að kjósendur megi velja frambjóðendur af listum ólíkra stjórnmálasamtaka en löggjafanum verði eftirlátið að ákveða hvort sú heimild verði nýtt. Víðast hvar ganga reglur um persónukjör skemur en tillögur stjórnlagaráðs. Í Færeyjum og Finnlandi, Hollandi og á Írlandi er persónukjör þó alls ráðandi. Kjósendur ráða því á kjörstað hverjir ná kjöri af hverjum lista, svipað og stjórnlagaráð leggur til. Þá eru dæmi um blandaðar leiðir, uppstillingar á listum og persónukjör. Fátítt er að hægt sé að kjósa frambjóðendur þvert á framboðslista en slíkt fyrirkomulag er til dæmis á Írlandi. Sem dæmi um útfærslu reglna, sem auka val kjósenda um persónur, má nefna að í Svíþjóð eru boðnir fram raðaðir listar. Ef 5% kjósenda framboðslista merkja við tiltekinn frambjóðanda fer hann efst á listann. Sama á við ef merkt er við fleiri en einn; þá fara þeir allir efst á listann og raðast innbyrðis í samræmi við fjölda atkvæða. Sjaldgæft hefur verið að sænskir frambjóðendur hafi náð kjöri vegna slíkra breytinga en frá því að kerfið var innleitt 1998 hafa 22-30% kjósenda nýtt réttinn til persónukjörs. Annað dæmi er danska leiðin. Í Danmörku er val um að bjóða fram raðaða eða óraðaða lista en flestir flokkar bjóða fram óraðaða lista. Í þingkosningum 2007 raðaði um helmingur kjósenda frambjóðendum og réð þannig hverjir voru kjörnir af einstökum listum. Helstu rök fyrir auknu persónukjöri eru þau að með því sé val kjósenda aukið og persónuleg ábyrgð stjórnmálamanna sömuleiðis. Kjósandi hefði þá möguleika á að velja þá einstaklinga sem hann telur hæfasta og treystir best til starfa á þingi. Helstu rök gegn persónukjöri eru þau að ekki sé hægt að fullyrða hver áhrif slíks kerfis gætu orðið. Mikil áhersla á persónur geti ýtt undir ómálefnalega stjórnmálabaráttu og víða hafi persónukjör skapað vanda við að halda utan um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi. Sjá 5. mgr. 39. gr. tillagna stjórnlagaráðs hér. Sjá annað efni sem tengist umfjöllun um persónukjör: Hér er spurt hvort atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu eigi að vega jafnt. Ekki er spurt hvort landið skuli vera eitt eða fleiri kjördæmi. Misvægi atkvæða þýðir að í einu kjördæmi þarf fleiri atkvæði til þess að fá þingmann kosinn en í öðru. Í alþingiskosningum 2009 voru 2.366 kjósendur á kjörskrá að baki hverjum kjörnum þingmanni í Norðvesturkjördæmi en 4.850 í Suðvesturkjördæmi. Þingmaður í Suðvesturkjördæmi þurfti þannig að fá ríflega tvöfalt fleiri atkvæði en þingmaður í Norðvesturkjördæmi til að ná kjöri. Jafnt vægi atkvæða þýðir að slíkur munur er ekki á milli kjördæma. Í alþingiskosningum 2009 voru kjósendur á kjörskrá að baki hverjum kjörnum þingmanni í Reykjavíkurkjördæmi suður 3.977 en 3.979 í Reykjavíkurkjördæmi norður. Milli þessara tveggja kjördæma var því jafnt vægi atkvæða. Allt frá fyrstu alþingiskosningunum 1844 hafa Íslendingar búið við misvægi atkvæða eftir kjördæmum en það hefur þó minnkað á undanförnum árum. Samkvæmt 5. málsgrein 31. greinar stjórnarskrárinnar má atkvæðamisvægi ekki vera meira en einn á móti tveimur og þingsæti færast milli kjördæma ef enn meira misvægi skapast. Það gerðist árin 2003 og 2009 í Norðvesturkjördæmi. Við næstu alþingiskosningar mun eitt þingsæti færast frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis þar sem verða þá 13 sæti en voru 12 árið 2009. Þingmenn Norðvesturkjördæmis verða þar af leiðandi átta í næstu kosningum en voru níu árið 2009. Stjórnlagaráð leggur til í 39. grein að öll atkvæði á landinu vegi jafnt. Alþingi geti ákveðið að landið verði eitt kjördæmi en því sé líka heimilt að skipta landinu í kjördæmi og þá þannig að hluti þingmanna verði kosinn í kjördæmum, mest 30 þingmenn af 63. Í skýringum með tillögunni segir að um sé að ræða efnislega nýja reglu sem kveður á um að atkvæðavægi kjósenda alls staðar á landinu skuli vera það sama. Farinn sé viss meðalvegur í því hvort landið skuli vera eitt kjördæmi eða ekki þannig að frambjóðendur geti beint framboði sínu að afmörkuðum svæðum eða kjördæmum en kjósendum standi samt allir frambjóðendur landsins til boða. Öll Norðurlöndin nema Færeyjar kjósa þingmenn úr kjördæmum og sama á við um flest önnur vestræn lýðræðisríki. Í kjördæmakerfi er flókið að tryggja jafnvægi milli kjördæma. Unnt er þó að ná meira atkvæðajafnvægi en nú er og jafnvel nokkurn veginn jöfnu vægi atkvæða í slíku kerfi. Helstu rök fyrir jöfnu vægi atkvæða á bak við hvern þingmann eftir landshlutum eru þau að eðlilegt sé að atkvæði allra kjósenda vegi jafnt, óháð búsetu og öðrum félagslegum þáttum. Helstu rök fyrir misvægi atkvæða eru að áhrif þéttbýlis séu of mikil á kostnað dreifbýlis. Eðlilegt sé því að íbúar dreifðra byggða, fjarri aðsetri stjórnsýslu og ríkisvalds, hafi fleiri þingmenn á Alþingi en fólksfjöldinn einn segir til um. Sjá 31. gr. stjórnarskrárinnar og 39. gr. tillagna stjórnlagaráðs hér. Sjá annað efni sem tengist umfjöllun um atkvæðavægi: Markmið spurningar um þjóðaratkvæðagreiðslur er að kanna afstöðu kjósanda til þess hvort stjórnarskráin eigi að mæla fyrir um að tiltekið hlutfall, þ.e. ákveðin prósentutala kjósenda á kjörskrá, geti átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Ekki er spurt um hversu hátt hlutfallið skuli vera. Í stjórnarskrá Íslands eru engin ákvæði um að kjósendur geti átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru fremur fátíðar í Evrópuríkjum en þeim hefur fjölgað á síðustu áratugum, meðal annars í tengslum við aðild ríkja að Evrópusambandinu. Á Íslandi er ekki rík hefð fyrir því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu til að leita eftir áliti þjóðarinnar um tiltekin málefni eða virkja þær heimildir sem stjórnarskráin veitir til að vísa málum í þjóðaratkvæði. Þróun undangenginna áratuga hér á landi hefur verið svipuð og á öðrum Norðurlöndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru hugsaðar sem ákveðinn varnagli gagnvart fulltrúalýðræðinu og efnt til þeirra við sérstakar aðstæður. Í 65. grein tillagna stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að 10% kjósenda geti krafist bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Sama hlutfall kjósenda geti haft frumkvæði að því að leggja fram þingmál á Alþingi sem síðan skuli borið undir þjóðina í bindandi eða ráðgefandi atkvæðagreiðslu að vali Alþingis samkvæmt 66. grein. Kveðið er á um það í 67. grein tillagnanna að mál, sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda, skuli varða almannahag og tilgreint hvaða málaflokkar séu undanþegnir slíkum ákvæðum. Í sumum ríkjum, til dæmis í Sviss og á Ítalíu, eru þjóðaratkvæðagreiðslur algengar en þar geta kjósendur átt frumkvæði að því að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá. Slík ákvæði eru ekki í stjórnarskrám Norðurlanda. Á Íslandi er að finna ákvæði í 108. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011um frumkvæði íbúa sveitarfélags til að óska eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið málefni. Samkvæmt því skal sveitarstjórn verða við slíkri ósk ef 20% kjósenda í sveitarfélagi krefjast atkvæðagreiðslunnar. Helstu rök fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum eru að auka þátttöku og skilning kjósenda á þeim málum sem fjallað er um. Þjóðaratkvæðagreiðslur geta einnig upplýst stjórnvöld um óskir kjósenda og komið á dagskrá málefnum sem ekki hafa vakið áhuga stjórnmálamanna. Í sumum tilvikum geta þjóðaratkvæðagreiðslur verið leið til að útkljá deiluefni sem erfitt er að leysa með öðrum hætti. Helstu rök gegn fjölgun þjóðaratkvæðagreiðslna eru að þær geti valdið minni kjörsókn og ýtt undir tilhneigingu til að skoða mál ekki í samhengi heldur hvert fyrir sig. Afstaða til annars en þess sem kosið er um hefur stundum áhrif á úrslit þjóðaratkvæðagreiðslna, t.d. afstaða til ríkisstjórnar, og fjársterkir aðilar eða fjölmiðlar geta haft mikil áhrif. Í sumum tilvikum ráða stjórnvöld síðan sjálf hvernig úrslitin eru túlkuð. Sjá 65., 66. og 67. greinar gr. stjórnarskrárinnar tillagna stjórnlagaráðs hér. Sjá annað efni sem tengist umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur:Spurning nr. 1 – Tillögur stjórnlagaráðs og skýringartexti á kjörseðli
Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.Núgildandi fyrirkomulag
Tillögur stjórnlagaráðs
Umræður og álitamál
Ráðgefandi atkvæðagreiðsla
Ferlið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu
Spurning nr. 2 – Náttúruauðlindir
Já
NeiNúgildandi fyrirkomulag
Tillögur stjórnlagaráðs
Umræður og álitamál
Spurning nr. 3 – Þjóðkirkja
Já
NeiNúgildandi fyrirkomulag
Tillögur stjórnlagaráðs
Umræður og álitamál
Spurning nr. 4 - Persónukjör
Já
NeiNúgildandi fyrirkomulag
Tillögur stjórnlagaráðs
Umræður og álitamál
Spurning nr. 5 – Atkvæðavægi
Já
Nei
Misvægi eða jafnt vægi atkvæða
Núverandi fyrirkomulag
Tillögur stjórnlagaráðs
Umræður og álitamál
Spurning nr. 6 - Þjóðaratkvæðagreiðslur
Já
NeiNúgildandi fyrirkomulag
Tillögur stjórnlagaráðs
Umræður og álitamál