undirsida_lomagnupur01.jpg

Stjórnlaganefnd og þjóðfundur

Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing skyldi Alþingi kjósa sjö manna stjórnlaganefnd sem fékk þríþætt hlutverk:

  1. Að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni, vinna úr upplýsingum og afhenda stjórnlagaþingi.
  2. Að annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst gætu stjórnlagaþingi.
  3. Að leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá þegar það kæmi saman. Stjórnlaganefnd var falið sama verkefni gagnvart stjórnlagaráði.

Þjóðfundur var haldinn 6. nóvember 2010 og sóttu hann 950 fulltrúar, sem valdir voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Meginniðurstöðum og viðhorfum fundarins var skipt í átta þætti sem var ætlað að draga fram þau atriði sem þátttakendur lögðu áherslu á sem gildi og hugsjónir í nýrri stjórnarskrá: siðgæði; lýðræði; mannréttindi; náttúru Íslands, vernd og nýtingu; frið og alþjóðasamvinnu; valddreifingu, ábyrgð og gegnsæi; réttlæti, velferð og jöfnuð; land og þjóð.

Nefndin skilaði skýrslu í tveimur bindum og afhenti stjórnlagaráði þegar það kom saman. Í 1. bindi var fjallað um þjóðfund 2010 og niðurstöður hans, valkosti um tillögur að breytingum á stjórnarskrá, auk úttekta og skýrslna. Í 2. bindi voru skýringar á ákvæðum stjórnarskrárinnar, umfjöllun um breytingar á henni og samantekt um stjórnarskrár í nokkrum ríkjum.

 

 

Deildu